Innlent

Einar Oddur kvaddur

Um þúsund manns voru við minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson alþingismann í Hallgrímskirkju í dag. Þeirra á meðal voru forseti Íslands, forsætisráðherra og ríkisstjórn.

Einar Oddur Kristjánsson fæddist 26. desember 1942 á Flateyri og varð bráðkvaddur í fjallgöngu nærri heimabyggð sinni laugardaginn 14. júlí, sextíu og fjögurra ára gamall. Minningarathöfn var haldinn um hann í Hallgrímskirkju í dag en hann verður jarðsunginn frá Flateyrarkirkju næst komandi laugardag.

Fyrir utan fjölskyldu og nánustu ættingja voru við athöfnina Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Geir H Haarde forsætisráðherra, aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, alþingismenn og forystufólk ýmissa samtaka ásamt stórum hópi vina. Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur og fyrrverandi samherji Einars Odds á Alþingi þjónaði fyrir altari í athöfninni og minntist á þjóðarsáttina.

Sr. Hjálmar sagði við athöfnina að íslenskan hefði mörg falleg orð að geyma, en að þessu sinni væri orðið "þjóðarsátt" honum efst í huga og sér þætti það mest viðeigandi.

Séra Hjálmar minntist starfa Einars í atvinnulífinu og á vettvangi þjóðmála og fór yfir þá mannkosti hans sem gerðu hann að sáttasemjara. Hann hafi verið maður bjartsýninnar og ekki þeirrar gerðar að láta áföll buga sig og því kjörinn til forystu. Einnar Oddur hefði gjarnan haft á orði að það væri nóg til fyrir alla.

Þeir sem báru kistu Einars Odds úr kirkju voru Geir H Haarde forsætisráðherra, Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisaráðherrar, Víglundur Þorsteinsson iðnrekandi, Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins, Gunnar Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi og Ásmundur Stefánsson fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×