Innlent

5 ára sonur gæti bjargað flóttamanni

Sighvatur Jónsson skrifar

Framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands segir að flóttamaður frá Darfur héraði í Súdan, sem á fimm mánaða son en hefur verið synjað um dvalarleyfi hér á landi, geti kært úrskurð dómsmálaráðuneytisins. Ákvæði í lögum heimilar manninum að dvelja hér á landi hafi hann sérstök fjölskyldutengsl við landið.

Málið snýst um tuttugu og þriggja ára flóttamann frá Darfur héraði í Súdan, sem hefur dvalið á Íslandi í tvö ár. Íslensk stjórnvöld efast um uppruna hans og hafa því synjað manninum um hæli flóttamanns og dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hann á fimm mánaða son með ganískri konu hér á landi.

Rauði krossinn fylgist með að flóttamenn fái réttláta meðferð, og framkvæmdastjórinn segir að maðurinn geti nú leitað til dómstóla.

Manninum hefur verið gert að yfirgefa landið eins fljótt og auðið er, en hann býr hjá foreldrum barnsmóður sinnar. Það frestar þó ekki brotvísun að flóttamaður ákveði að kæra úrskurð til dómstóla, og þarf þá að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi á meðan málið er tekið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×