Innlent

Vonlítið að veiða ýsukvótann segja sjómenn fyrir vestan

Sjómenn á Vestfjörðum telja nánast vonlaust að veiða ýsukvótann sem þeim hefur verið úthlutað því mikið af þorski komi með sem þeim verður ekki heimilt að veiða.



Fiskveiðiárinu lýkur eftir rúman mánuð og enn er eftir að veiða rúmlega 30 þúsund tonn af þeim 115 þúsund tonnum, sem mátti veiða af ýsu á tímabilinu.

Þar af eru tíu þúsund óveidd ýsutonn, sem ekki náðist að veiða á síðasta fiskveiðiári og voru flutt yfir á þetta.

Einhverjum kann að virðast einfalt að veiða þann kvóta sem er úthlutað í ýsu en sjómenn á vestfjörðum segja að fiskar syndi ekki í einangruðum torfum eftir tegundum.

Þegar færin eru úti komi ekki fiskur á önglana eftir kvótaúthlutun sjávarútvegsráðherra og samkvæmt ráðgjöf Hafró. Sigurður Kjartan Halldórsson, útgerðarmaður í Bolungarvík, segir að þorskur og ýsa blandist saman.

Í framhaldi af skerðingu á þorskkvóta fyrir næsta fiskveiðiár hafa margir dregið upp dökka mynd af horfunum í sjávarplássunum og þá sérstaklega á Vestfjörðum þar sem menn byggja afkomu sínu að verulegu leyti á sjávarútvegi. Georg Rúnar Ragnarsson, skipstjóri á Flateyri, segir að sjómenn fyrir vestan séu þó á því að berjast og þrauka í gegnum kvótaskerðinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×