Innlent

Þrettán mótmælendur handteknir við álverið í Straumsvík

MYND/RJ

Um þrettán mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland voru handteknir vegna mótmæla við álverið í Straumsvík laust eftir klukkan tvö í dag. Hluti hópsins hlekkjaði sig við hlið að vinnusvæði álversins og tókst þannig að loka tímabundið fyrir alla umferð að svæðinu. Þá fóru nokkrir mótmælendur inn á vinnusvæðið.

Mótmælin hófust rétt fyrir klukkan eitt í dag. Um tuttugu mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan álverið í Straumsvík. Hluti þeirra fór inn á vinnusvæðið en þrír hlekkjuðu sig við hlið að svæðinu og lokuðu þannig fyrir alla umferð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu óskaði álverið eftir aðstoð lögreglu til að koma mótmælendum í burtu.

Um þrettán mótmælendur voru handteknir að sögn talsmanns Saving Iceland. Sex voru handteknir við hliðið og þá voru þeir sem höfðu farið inn á vinnusvæðið einnig handteknir. Hluti þeirra ætlaði sér að klifra upp í vinnukrana á svæðinu.

 

Fólkið hefur verið flutt á lögreglustöð til yfirheyrslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×