Innlent

Lýsa yfir áhyggjum vegna sífellt flóknari reglna

Afla landað í Reykjavíkurhöfn.
Afla landað í Reykjavíkurhöfn. MYND/SK

Sífellt flóknari regluverk um vigtun sjávarafla og aukin ábyrgð á starfsmenn hafna án endurgjalds frá ríkinu er áhyggjuefni að mati stjórnar Hafnasambands Íslands. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sambandinu.

Í yfirlýsingunni segir að hertari reglur um vigtun sjávarafla og aukin ábyrgð vigtunarmanna, þar með talin refsiábyrgð, sé áhyggjuefni. Telja samtökin nauðsynlegt að ríkið komi til móts við hafnir landsins með einhvers konar endurgjaldi vegna þessa.

Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að engin tilvik hafi komið upp sem leiða til efasemda um heiðarleika eða samvikusemi vigtarmanna hafnanna. Því sé það óviðunandi fyrir íslenskar hafnir og starfsmenn að í blaðagreinum sé látið að því liggja að pottur sé brotinn í þessum efnum. Mótmæli stjórn Hafnasambands Íslands þessum aðdróttunum enda séu þær fullkomlega rakalausar og á engum forsendum byggðar.

Í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu var gerð alvarleg athugasemd við vinnubrögð hafnarstarfsmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×