Innlent

Vill að Hagstofan fari með verðlagseftirlit

Finnur Árnason, Forstjóri Haga er hlynntur rafrænum verðkönnunum en segist ekki sjá fyrir sér að hægt verði að fylgjast með verðþróun dag frá degi. Hagar funduðu með Hagstofunni í lok júní þar sem þeir viðruðu þá hugmynd sína að veita Hagstofunni aðgang að gagnagrunni fyrirtækisins. Finnur segir eðlilegra að Hagstofan fari með verðlagseftirlit fremur en ASÍ eða Neytendastofa.

Þannig tekur Finnur undir sjónarmið Samtaka verslana og þjónustu sem ályktuðu í síðustu viku sömu ósk, það er að Hagstofan taki að sér rafrænt eftirlit með matvælaverði.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu hefur hins vegar sagt í fréttum að hann teldi eðlilegast að Neytendastofa færi með slík eftirlit. Eins hefur Tryggvi stungið upp á því að eftirlitið væri með þeim að hætti að hægt væri að fylgjast með verðbreytingum á einstökum vörutegundum dag frá degi, til dæmis á netinu.

Finnur Árnason sér ekki fyrir sér að hægt verði að fara út í svo nákvæmt verðlagseftirlit en segir mikilvægt að stuðst sé við nákvæmar upplýsingar þegar verðlagsþróun er skoðuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×