Innlent

Áhöfnin á TF-SIF fór á ný í loftið í dag

Áhöfnin á TF-Sif hélt í sína fyrstu flugferð í framhaldi af nauðlendingu þyrlunnar við Straumsvík á mánudag. Það var smáskjálfti í flugstjóranum en áhöfnin óskaði eftir því að komast í loftið sem allra fyrst.



Þyrluáhöfnin sem lenti í óhappinu við Straumsvík fyrr í vikunni undirbjó flug núna síðdegis, það fyrsta síðan í óhappinu á mánudag. Áhöfnin fór vandlega yfir alla öryggisþætti áður en lagt var í hann.



Rannsóknarnefnd flugslysa rannsakar nú tildrög slyssins og von er á erlendum sérfræðingum frá framleiðendum þyrlunnar og hreyflanna til fundar við Íslendinga. Að sögn Þorkels Ágústsonar, sem stýrir rannsókninni, mun rannsóknarnefnd flugslysa í Frakklandi taka þátt í rannsókninni en vélin er framleidd þar í landi. Rannsókninni miðar vel en engin niðurstaða er fengin.

Sigurður Heiðar Wium flugstjóri segir að menn hjá Gæslunni hafi nýlega endurskoðað allar verklagsreglur og markmiðið sé að bæta sig stöðugt og auka öryggi.

Það var einbeitt áhöfn sem mannaði TF-EIR í dag, sem er að svipaðri gerð og þyrlan sem var nauðlent við Straumsvík. Ferðin var stutt og gekk hún að vonum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×