Innlent

Afrek sem verður minnst lengi

Fimm manna skáksveit Salaskóla í Kópavogi kom til landsins frá Tékklandi í gærkvöldi, eftir að hafa fyrst íslenskra skáksveita unnið heimsmeistaratitil. Forseti Skáksambands Íslands segir að afrek sveitarinnar verði lengi í minnum haft.

Heimsmeistaramótið fór fram í Pardu í Tékklandi og kepptu sveitir grunnskóla víðs vegar að úr heiminum, í þessu þriðja heimsmeistaramóti grunnskólanema sem Alþjóðaskáksambandið, FIDE, stendur fyrir.

Sveit Salaskóla barðist vel á mótinu og stóð loks upp sem sigurvegari í flokki skákmanna fjólrtán ára og yngri, með 17 vinninga. Það var vel tekið á móti unga skákfólkinu þegar það kom heim til landsins í gærkvöldi.

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, fyrirliði sveitarinnar, segir að það sé góð tilfinning að hafa unnið titilinn. Það hafi vissulega staðið tæpt, því íslenska sveitin hlaut að lokum 17 vinninga en sveit frá Suður Afríku kom næst með 16 vinninga.

Auk Jóhönnu Bjargar vou Patrekur Maron Magnússon, Páll Andrason, Guðmundur Kristinn Lee og Birkir Karl Sigurðsson í sveitinni, en þjálfari þeirra er Hrannar Baldursson. Þau mættu öll í heiðursmóttöku hjá Gunnari Birgissyni bæjarstjóra í Kópavogi í morgun. Þangað var líka mætt Guðfríður Lilja, forseti Skáksambands Íslands. Hún minnti á að þetta væri í fyrsta skipti sem íslensk skáksveit ynni heimsmeistaratitil þótt einstaklingar hefðu áður unnið slíkan titil.

Guðfríður Lilja sagði í móttökunni að skákhreyfingin, kópavogsbúar og allir landsmenn væru stoltir af árangri sveitarinnar.

Gunnar Birgisson bæjarstjóri segir stjórnendur Salaskóla eiga hrós skilið fyrir að standa svo vel að uppbyggingu skákkennslu í skólanum. Árangurinn nú verði bænum hvatning til að gera enn betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×