Innlent

Ætluðu upp á þak en enduðu á annari hæð

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Samtökin Saving Iceland mótmæltu sölu Orkuveitu Reykjavíkur á raforku til álvera Century Aluminium og Alcan í höfuðstöðvum fyrirtækisins fyrr í dag. Í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér sögðu þau trúðahóp samtakanna vera á þaki hússins og hafa hengt þar upp flagg með áletruninni ,,Vopnaveita Reykjavíkur".

Seinna kom í ljós að mótmælendurnir höfðu hætt við prílið upp á þak vegna veðurs og hengt borðann upp inni í húsinu, á göngubrú á annari hæð.

Lögregla fékk ábendingar um málið og mætti á svæðið en aðstoð þeirra var afþökkuð.

Helgi Pétursson, talsmaður Orkuveitunnar segir hóp fólks með rauð nef hafa komið í Orkuveituna, þar sem það hafi spjallað við starfsfólk og þegið vatnssopa og jarðarber. Páll Erland, framkvæmdastjóri Veitna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sagði fólkið hafa verið hið prúðasta, og að engin tilraun hafi verið gerð til að koma í veg fyrir að þau hengdu upp borðann. Mótmælendur sem Vísir ræddu við staðfestu þetta.

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, meðlimur í samtökunum, sagði að baráttumál samtakanna væru jafn sönn og mikilvæg hvernig sem þakferðin hefði farið. Samtökin eru á móti stækkun Hellisheiðarvirkjunar sem þau segja hvergi nærri eins umhverfisvæna og Orkuveitan heldur fram.

Þau segja stóran hluta framleidds áls fara í hergagnaframleiðslu.

,,Það er eins og hér á landi sé í gangi keppni um hvert af eftirfarandi fyrirtækum - ALCOA, ALCAN-Rio Tinto eða Century-RUSAL - hafi framið flest og stærst mannréttindabrot og umhverfisglæpi. Verðlaunin er ódýr íslensk orka. Enginn þessara böðla ætti að fá orku frá O.R." sagði Snorri í tilkynningu frá samtökunum.

Fyrr í dag slettu samtökin málningu á ræðismannsskrifstofu Íslands í Edinborg og fyrr í vikunni lokuðu þau veginum að álveri Century á Grundartanga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×