Innlent

Samtök atvinnulífsins vilja að Hagstofan taki við verðlagseftirliti

Samtök atvinnulífsins segja vinnubrögð Alþýðusambandsins vera óvönduð.
Samtök atvinnulífsins segja vinnubrögð Alþýðusambandsins vera óvönduð. MYND/AB

Samtök atvinnulífsins vilja að Hagstofa Íslands taki við verðlagseftirliti í matvöruverslunum af Alþýðusambandi Íslands. Samtökin hafa sent Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf þessa efni. Þá kvarta þau ennfremur undan óvönduðum vinnubrögðum verðlagseftirlits Alþýðusambandsins.

Í bréfi til forsætisráðherra sem Vilhjálmur Egilsson,framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifar undir er bent á að um nokkurra ára skeið hafi rafrænum upplýsingum um sölu í matvöruverslunum verið safnað. Að mati samtakanna væri hægt að nýta þessar upplýsingar til að gefa betri mynd af verðlagi á markaðinum.Benda samtökin ennfremur á að Hagstofa Íslands væri eðlilegur aðili til þess að vinna úr þessum upplýsingum í samráði við alla viðeigandi hagsmunaaðila.

Samtökin gagnrýna vinnubrögð Alþýðusambandsins og segja þau óvönduð bæði hvað varðar vinnslu gagna og framsetningu á niðurstöðum. Telja samtökin nauðsynlegt að þróa nýjar og betri aðferðir til að gera samanburðarrannsóknir á verðlagi og koma þeim upplýsingum á framfæri.

Þá telja samtökin ennfremur ástæðu til að taka til umræðu hlutverk verðlagseftirlits Alþýðusambandsins í ljósi þess styrks sem sambandið fær úr ríkissjóði. Að mati samtakanna hefur Alþýðusambandið ekki tekið tillit til þróun hlutar matvörumarkaðar í grunni vísitölu neysluverðs við skipulag verðlagseftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×