Innlent

Tækifæri til að ná sáttum milli stríðandi fylkinga

Ráðamenn í Ísrael og Palestínu telja ákveðið tækifæri núna til að ná samningum milli stríðandi fylkinga. Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sem fundaði með forseta Palestínu í morgun. Hún fundaði með forseta Ísraels, fyrr í vikunni, sem sagði ráðamenn í Evrópu ekki þekkja það að búa við hryðjuverkaógn og geti því ekki gagnrýnt aðgerðir Ísraela.

Ingibjörg hefur verið á ferð um Ísrael og Palestínu síðustu daga. Í morgun hitti hún Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, á fundi í Ramallah á Vesturbakkanum. Ingibjörg fundaði fyrr í vikunni með Simon Peres forseta Ísraels. Dagblaðið Jerúsalem Post greinir frá því að á fundinum hafi Peres sagt Ingibjörgu að leiðtogar Evrópuríkjanna hafi ekki reynt á eigin skinni að búa við hryðjuverkaógn og geti því ekki gagnrýnt aðgerðir Ísraela.

Utanríkisráðherra segir ráðamenn í Ísrael og Palestínu telja ákveðið tækifæri núna til að ná samningum milli stríðandi fylkinga. Hún segir ísraelska þingmenn sem hún hafi rætt við segja Íslendinga geta gengt hlutverki í friðarviðræðum milli deiluaðila.

Á morgun heldur Ingibjörg til Betlehem þar sem hún ætlar meðal annars að skoða flóttamannabúðir og á laugardaginn fer hún til Jórdaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×