Erlent

Ingibjörg Sólrún hitti Abbas í morgun

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hitti Abbas forseta Palestínu á fundi á Vesturbakkanum í morgun. Abbas tilkynnti í gær að hann hygðist boða til þing- og forsetakosninga innan skamms.

Ingibjörg Sólrún hitti Abbas á Vesturbakkanum klukkan níu í morgun að íslenskum tíma. Fundurinn var ekki langur en dagskrá Ingibjargar er nokkuð þétt í dag. Opinber heimsókn hennar til Ísraels og Palestínu hófst á mánudaginn og hefur hún meðal annars hitt Simon Peres forseta Ísraels. Ingibjörg sagði eftir fundinn í morgun að alþjóðasamfélagið hefði hlutverki að gegna gagnvart Palestínumönnum. Mikilvægara væri þó að Palestínumenn og Ísraelar kæmust að samkomulagi sín á milli.

Í gær tilkynnti Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, að hann ætli sér að boða til þing- og forsetakosninga innan skamms. Abbas fer fyrir bráðabirgðastjórn sem mynduð var í síðasta mánuði.

Samtök Hamas hafa lýst því yfir að þau vilji ekki að kosningar verði haldnar á næstunni en samtökin sigruðu í þingkosningunum sem haldnar voru í Palestínu í fyrra.

Um miðjan júní síðastliðinn var mynduð ný stjórn eftir að Hamas náði völdum á Gazasvæðinu. Forystumenn Hamas neituðu strax að viðurkenna ríkisstjórnina.

Neyðarstjórnin fékk undireins góðar viðtökur hjá bæði Ísraelum og Bandaríkjamönnum sem fögnuðu henni og sögðu hana boða nýtt upphaf friðarumleitana. Bæði Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hófu í framahaldi beina aðstoð við bráðabrigðastjórn Abbas með fjárframlögum. Hvorugur aðilinn hafði stutt Palestínumenn fjárhagslega frá sigri Hamas í þingkosningum í janúar á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×