Innlent

Atvinnuleysi á ekki að vera hagstjórnartæki segir ASÍ

Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ segir hugmyndir framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um að opna vinnumarkaðinn enn frekar til að draga úr verðbólgu benda til að hann vilji nota atvinnuleysi sem hagstjórnartæki. Framundan sé atvinnuleysi vegna loka stóriðjuframkvæmda og aflasamdráttar og óvarlegt sé að kynda enn frekar undir það.

Ólafur Darri segir ekki skrítið að menn gagnrýni hávaxtastefnu Seðlabankans enda hafi verðbólgan verið yfir efri þolmörkum Seðlabankans í tvö ár og raunstýrivextir séu tíu prósent. Opinber fyrirtæki, stórfyrirtæki og bankar geti sótt fé til útlanda meðan hávaxtastefnan bitni fyrst og fremst á einstaklingum og minni fyrirtækjum. Það þýði þó lítið að gagnrýna bankann sjálfan. Hann hafi engin önnur tæki. Þó sé áhyggjuefni að bankinn boði áframhaldandi háa vexti þrátt fyrir spár um samdrátt í ljósi þess að stýrivaxtahækkanir séu yfirleitt um átján mánuði að virka á hagkerfið. Fasteignamarkaðurinn beri uppi verðbólguna. Stjórnvöld séu þegar byrjuð að vinda ofan af þenslunni með aðgerðum í opinbera húsnæðiskerfinu. Það sé mun eðlilegra viðbragð en að halda stýrivöxtum svona háum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×