Innlent

SPRON fyrirhugar breytingar í hlutafélag

Núna eru 1.340 stofnfjáreigendur í SPRON.
Núna eru 1.340 stofnfjáreigendur í SPRON. MYND/PJ

Stjórn SPRON samþykkti í dag að undirbúa breytingu sparisjóðsins í hlutafélag og óska eftir skráningu félagsins í Norrænu kauphöllina á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SPRON. Breyting sparisjóðsins í hlutafélag verður háð samþykki stofnfjáreigenda og Fjármálaeftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningu frá SPRON að samkvæmt lögum verður allt það hlutafé sem ekki rennur til stofnfjáreigenda að verða eign sjálfseignarstofnunar sem sett verður á stofn við breytinguna.

Ráðgjafarfyrirtækið Capacent hefur metið markaðsvirði SPRON og gagngjalds fyrir stofnfjárhluti. Samkvæmt því mati mun eignarhluti stofnfjáreigenda nema 85 prósent af hlutafé og eign sjálfseignarstofnunarinnar verða 15 prósent. Eigið fé sjálfseignarstofnunarinnar mun því verða um 9 milljarðar króna.

Núna eru 1.340 stofnfjáreigendur í SPRON með um 20 milljarða krónur í stofnfé.

Guðmundur Hauksson, Sparisjóðsstjóri, sagði í samtali við Vísi að breytingar væru gerðar til að takast á við breyttar aðstæður á fjármálamarkaði. „Fjármagnsmarkaðurinn hefur breyst mjög hratt á undanförnum árum og við stöndum ekki lengur jafnfætis viðskiptabönkunum. Löggjöfin um stofnfé er óskýrari en löggjöfin um hlutafé. Ef fyrirtækið ætlar að sækjast eftir fjármagni frá almenningi hentar hlutafélagsformið betur."

Tillaga stjórnar SPRON verður lögð fyrir stofnfjáreigendur í næsta mánuði. Verði hún samþykkt mun Fjármálaeftirlitið þurfa taka afstöðu til málsins. Guðmundur segist ekki eiga von á öðru en að Fjármálaeftirlitið muni samþykkja breytinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×