Innlent

Faðir stúlkunnar vill hjálp barnaverndaryfirvalda

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Stúlkunni sem réðst á jafnöldru sína í tívolíinu í síðustu viku var vísað úr skóla síðastliðið haust. Hún er á skólaskyldualdri en fékk ekki skólavist síðastliðinn vetur. Faðirinn segist hafa átt viðtal við barnaverndaryfirvöld í dag og leiti eftir úrræðum á þeirra vegum.

Stúlkan lýsti árásinni á bloggsíðu sinni. Faðirinn telur að hún hafi kryddað söguna svolítið þar. Hann trúi ekki að árásin hafi verið eins alvarleg og þar sé skrifað. Hann hafi fengið símtal frá lögreglunni að kvöldi þriðjudags og verið beðinn um að sækja stúlkuna. Slík símtöl hafi hann fengið all oft áður og því beðið lögregluna um að keyra stúlkuna beint á Stuðla.

Faðirinn segir forsögu málsins vera 10 ára gamla. Móðir hennar hafi látist þegar stúlkan var ung. Það hafi verið erfitt fyrir hana og systkini hennar. Faðirinn segir að mjög takmörkuð sálfræðiþjónusta hafi verið í boði á þessum tíma. Hann hefði kosið meiri aðstoð.

Hann segir að stúlkan hafi aldrei verið í neyslu. Hún hafi hins vegar verið í meðferð á Stuðlum og á BUGL vegna skapofsavandamála. Stúlkan hafi hins vegar aldrei fengið læknisfræðilega greiningu af viðeigandi aðilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×