Innlent

Skattalækkanir skila sér ekki til neytenda

Lækkanir á virðisaukaskatti hafa ekki skilað sér til neytenda samkvæmt nýrri verðkönnun Alþýðusambands Íslands. Á tímabilinu mars til maí hefur verð þvert á móti farið hækkandi og þá mest um 4,6 prósent í verslunum Krónunnar. Aðeins í Nettó lækkar verð lítillega eða um 0,2 prósent. Upphaflega var gert ráð fyrir að lækkun virðisaukaskatts myndi skila sér í að minnsta kosti 7,4 prósenta verðlækkun til neytenda. Niðurstaðan er vonbrigði að mati Alþýðusambandins.

Könnun Alþýðusambandsins var gerð á tímabilinu mars til maí í fjórum lágvöruverslunum. Nettó, Krónunni, Bónus og Kaskó. Samkvæmt niðurstöðum hækkaði verð í þremur verslunum en lækkaði lítillega í einni. Í Bónus hækkaði verð um 2 prósent, í Kaskó um 0,9 prósent og í Krónunni um 4,6 prósent. Aðeins í verslunum Nettó lækkaði verð um 0,2 prósent.

Mesta hækkunin á einstökum vöruflokkum er í gosi, söfum og vatni í Bónus og Krónunni um annars vegar 13,4 prósent og hins vegar 19,9 prósent. Þá hækkar fiskur um 13 prósent í Bónus en lækkar á sama tíma í Nettó um 3,9 prósent.

Frá áramótum hefur verð í lágvöruverslunum lækkað að meðaltali um 4,2 til 6,7 prósent. Samkvæmt mati Hagstofunnar átti lækkun á virðisaukaskatti hins vegar að lækka verð á matar- og drykkjavörum um 7,4 prósent og lækkun vörugjalda að skila 1,3 prósent lækkun til viðbótar. Á sama tíma hefur gengi íslensku krónunnar einnig styrkst.

Að mati Alþýðusambandsins er niðurstaðan því óásættanlega fyrir neytendur og veldur miklum vonbrigðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×