Innlent

Norrænir biskupar funda í Reykjavík

Biskuparnir heimsóttu Þingvelli í gær ásamt mökum sínum.
Biskuparnir heimsóttu Þingvelli í gær ásamt mökum sínum.

Nú stendur yfir í Reykjavík fundur allra biskupa lúthersku þjóðkirknanna á Norðurlöndum. Slíkur fundur er haldinn á þriggja ára fresti og var síðast haldinn hér fyrir 15 árum. Að þessu sinni taka 39 biskupar þátt í fundinum, 36 biskupar frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Færeyjum og Grænlandi og þrír frá Íslandi. Fundurinn hefur staðið yfir síðan á mánudagskvöld en honum lýkur með messu í Hallgrímskirkju í kvöld.

Í fréttatilkynningu frá þjóðkirkjunni segir að á dagskrá fundarins sé að venju, „yfirlit yfir stöðu mála er snerta kirkju og trúarlíf í hverju landi fyrir sig. Þá er tíminn nýttur til að kynnast landi og kirkju þeirrar þjóðar sem er gestgjafi hverju sinni. Í kynningu á Íslandi er lögð áhersla á vatn og náttúruvernd."

Í gær fór hópurinn í ferð til Þingvalla, þar sem hann fræddist um vatnið og jarðfræði Þingvalla og tók þátt í bænagöngu og helgistund í Þingvallakirkju. „Í dag, fimmtudag verður farið til Gvendarbrunna og að Nesjavöllum. Meðal annarra dagskrárliða í dag er fyrirlestur Árna Svans Daníelssonar um ímynd prestsins í kvikmyndum og notkun kvikmynda í kirkjustarfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×