Innlent

Hafa áhyggjur af fé vegna þurrka

Bændur hafa áhyggjur af fé sem komið er á afrétt þar sem vitað er að sum vatnsból sem féð gengur í eru að þorna upp eða eru hreinlega þornuð vegna langvarandi þurrka.

Sérstaklega á þetta við um norðaustanvert landið en þessa verður víða vart eins og í landnámi Ingólfs. Ef fram fer sem horfir er við búið að flytja þurfi vatn inn á svæðið með farartækjum líkt og gert var fyrir allnokkrum árum við svipaðar aðstæður.

Vatnsból eru líka sumstaðar orðin tæp í byggð þar sem hross ganga í haga en þau eru viðkvæmari fyrir vatnsskorti en kindur. Ekki er þó enn farið að tala um neyðarástand, að sögn Ólafs Dýrmundssonar, ráðunauts hjá Bændasamtökunum, en hann hvetur bændur til að fylgjast með því að skepnur þeirar fái nægilegt vatn.

Þá hefur verulega dregið úr grassprettu að sögn Ólafs og laxveiði er sáratreg víðast hvar á landinu vegna vatnsleysis í ánum. Við þetta bætist að úrkoma er ekki á næst leiti samkvæmt veðurspám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×