Innlent

Dæmd til að greiða manni bætur vegna líkamsárásar

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sakfellt konu fyrir líkamsárás gegn karlmanni og dæmt hana til að greiða honum ríflega 110 þúsund krónur í skaðabætur vegna árásarinnar.

Konan sló manninn í höfuðið með glasi á veitingastaðnum Kaffi Akureyri þannig að það brotnaði og hlaut maðurinn skurð á hnakka og mörg minni sár á hálsi. Þá dreifðust glerbrotin yfir annan mann og hlaut hann grunnan skurð í slímhúð hægra auga.

Fram kom fyrir dómi að fólkið hefði rekist hvort í annað á dansgólfi staðarins og hefði maðurinn hrækt á konuna. Hún hefði brugðist við með því að slá hann með glasinu.

Konan játaði brot sitt og segir í dómnum að atlaga hennar hafi verið hættuleg. Á hinn bóginn verði litið til þess að afleiðingar áverkanna voru ekki miklar og þá hafi framkoma mannsins verið óforsvaranleg.

Ákvað dómurinn með vísan til laga að láta refsingu konunnar falla niður en úrskurðaði að konan skyldi greiða manninum skaðabætur sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×