Innlent

Utanríkisráðherra ætlar að taka fangaflug til nánari skoðunar

Grunur leikur á því að ólöglegar fangaflugvélar hafi lent á íslenskum flugvöllum.
Grunur leikur á því að ólöglegar fangaflugvélar hafi lent á íslenskum flugvöllum. MYND/Stöð 2

Utanríkisráðherra ákvað í dag að taka til nánari skoðunar lendingar ákveðinna flugvéla á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. Þetta var ákveðið í framhaldi af umfjöllun þings Evrópuráðsins í dag um skýrslu um leynifangelsi og ólöglegt fangaflug CIA. Í skýrslunni er sagt frá fangaflugvélum sem meðal annars eiga að hafa lent hér á landi.

„Utanríkisráðherra hefur ákveðið að með hliðsjón af innihaldi fyrrnefndar skýrslu skýrslugjafa Evrópuráðsins verði lendingar ákveðinna flugvéla á Keflavíkurflugvelli og/eða Reykjavíkurflugvelli teknar til nánari skoðunar," segir í tilkynningunni. „Utanríkisráðuneytið vill ítreka að íslensk stjórnvöld hafa svarað með fullnægjandi hætti beiðnum Evrópuráðsins um upplýsingar varðandi framangreint. Ennfremur vill utanríkisráðuneytið ítreka að því er ekki kunnugt um flug á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn um íslenska lofthelgi eða Keflavíkurflugvöll. Hafa bandarísk stjórnvöld aldrei sótt um yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar flugvélar."

Þing Evrópuráðsins fjallaði fyrr í dag um aðra skýrslu svissneska þingmannsins Dick Marty, sérstaks skýrslugjafa Evrópuráðsins á vegum laga- og mannréttindanefndar þingsins, um leynifangelsi og ólöglegt fangaflug leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, í gegnum lofthelgi Evrópuráðsríkja. Þá samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun þar sem tekið er undir helstu niðurstöður skýrslu Martys að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×