Innlent

Hjúkrunarfræðingar flýja álag á spítölunum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Dæmi eru um að sjúklingar þurfi að dvelja á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut í allt að fjóra sólarhringa vegna skorts á öðrum úrræðum. Þetta segir hjúkrunarfræðingur sem þar hefur starfaði í á sjötta ár en hefur nú sagt upp störfum eftir að hafa fengið nóg af því erfiða ástandi sem ríkir á bráðadeildinni.

Mikið hefur undanfarið verið fjallað um manneklu á spítölunum og álag á starfsfólki. Katrín Jónsdóttir hefur starfað sem hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut í á sjötta ár. Hún hefur nú sagt upp störfum þar sem hún er orðin langþreytt á álaginu, lélegum vinnuaðstæðum og launakjörum sínum.

Katrín segir þrengslin mikil á deildinni. Þangað komi mikið veikt fólk og í mörgum tilvikum krabbameinssjúklingar sem þurfa mikla aðhlynningu og að vera í einangrun en þeir komist ekki á legudeildir vegna plássleysis. Hún segir dæmi um að sjúklingar hafi þurft að vera þar í allt að fjóra sólarhringa þar sem engin deild gat tekið við þeim.

Hún segir aðstæður slæmar en sjúklingar séu meðal annars í gluggalausum stofum þar sem loftræstingin hafi ekki undan og loftleysi sé mikið.

Katrín hættir störfum á deildinni í lok júlí og yfirgefur um leið hjúkrunarstarfið. Hún segir mikilvægt að stjórnvöld á spítalanum bregðist við ástandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×