Innlent

Landsvirkjun sögð hóta og múta sveitarstjórn Flóahrepps

Talsmaður samtaka áhugafólks um verndun Þjórsárvera segir Landsvirkjun hafa bæði hótað og mútað sveitastjórn Flóahrepps til að endurskoða þá ákvörðun að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag svæðisins. Landsvirkjun vísar þessum ásökunum alfarið á bug og segir viðræðum við hreppsnefndina ekki hafa verið lokið eins og haldið hafi verið fram.

Sveitastjórn Flóahrepps kynnti í gær tvær tillögur að aðalskipulagi svæðisins . Önnur tillagan var með Urriðafossvirkjun í aðalskipulagi en hin var án virkjunar. Hreppsnefndin hafði áður samþykkt að virkjunin yrði ekki í aðalskipulagi því ekki væri nægilegur ávinningur af henni. Landsvirkjun átti eftir það fund með hreppsnefndinni og bauð henni meðal annars endurbætur á vegum í sveitarfélaginu, kostun á nýjum aðveitum, og endurbótum á gsm sambandi.

Halldóra Gunnarsdóttir talsmaður Sólar í Flóa, samtaka áhugafólks um verndun Þjórsárvera segir Landsvirkjun bjóða sveitastjórninni fríðindi sem ríkið ætti að skaffa sveitarfélaginu. Vinnubrögð Landsvirkjunar séu ámælisverð.

Aðalsteinn Sveinsson Oddviti Flóahrepps segir að eftir fundinn með Landsvirkjun hafi verið sæst á að halda viðræðum áfram. Þorsteinn Hilmarssons upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar vísar ásökunum samtakanna Sólar í Flóa alfarið á bug og segir Landsvirkjun ekki hafa beitt hreppsnefndina þrýstingi í tengslum við málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×