Innlent

Löngu komið að sársaukamörkum í skerðingu á strætisvagnaþjónustu

Ákveðið hefur verið að hefja viðræður um að ríkið taki þátt í kostnaði við rekstur Strætó bs. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í stjórn Strætó segir löngu komið að sársaukamörkum í skerðingu á þjónustu strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Eðlilegt sé að ríkið taki þátt í kostnaði við almenningssamgöngur.



Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri lagði fram tillögu á fundi Samtaka sveitarfélaganna í gær um að ríkið kæmi að rekstri stofnleiða Stætó á höfuðborgarsvæðinu, skattbyrði af almenningssamgöngum yrði létt og að strætisvagnar hefðu forgang í umferðinni. Tillagan var samþykkt og er gert ráð fyrir að viðræður hefjist innan skamms. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sem situr í stjórn Strætó segir samgöngur á landsbyggðinni vera styrktar af ríkinu en ekki samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Tap Strætó bs nam um hálfum milljarði í fyrra og í lok árs skuldaði félagið tæpa tvo milljarða króna. Beinar tekjur ríkssjóðs vegna starfsemi Strætó bs. árið 2006 eru taldar vera um 300 milljónir króna. Þorbjörg Helga segir 85 % af rekstri strætisvagnanna vera kostnað vegna olíu og launa. Allt snúist því um hversu langar vegalengdir strætisvagnarnir eigi að keyra og hvernig ríkið gæti komið að þeim kostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×