Innlent

Eldur í fjölbýlishúsi í Njarðvík

MYND/Anton Brink

Betur fór en á horfðist í Njarðvík í kvöld þegar eldur kom upp í stigagangi þriggja hæða fjölbýlishúss. Þegar slökkviliðið kom á vettvang kom í ljós að kveikt hafði verið í blaðastafla og gekk greiðlega að slökkva eldinn en töluverður reykur myndaðist í húsinu. Nokkuð víst er að um íkveikju hafi verið að ræða.

 

Varðstjóri hjá Slökkviliði Brunavarna Suðurnesja segir að vel hafi gengið að slökkva eldinn enda hafi hann ekki náð að læsa sig í teppi eða veggi hússins. Það hefði því getað farið illa en fjöldi fólks var í húsinu þegar eldurin blossaði upp. Ekki er vitað hver kveikti í staflanum en lögreglan rannsakar málið.

 

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út, en varðstjórinn segir að þar sé reyndar ekki um marga menn að ræða, sérstaklega ef litið er til þeirrar íbúafjölgunar sem orðið hefur á svæðinu á síðustu árum. „Nú erum við líka komnir með öll húsin á varnarsvæðinu undir okkar hatt og þar skilst manni að háskólaíbúðir verði teknar í notkun nú í haust," segir hann. Enn hafa engin viðbrögð komið við umkvörtunum slökviliðsmannanna á svæðinu.

 

Sem dæmi um stærð slökkviliðsins á svæðinu bendir hann á að í útkallinu í kvöld, sem í fyrstu virtist vera alvarlegt, hafi allt tiltækt lið verið kallað á staðinn. „Það voru við þrír sem erum á vakt, slökkviliðsstjórinn sem er á bakvakt og síðan kölluðum við á þá þrjá sem eiga að vera á morgunvakt í fyrramálið," Það voru því sjö slökkviliðsmenn í það heila sem mættu á staðinn en sem betur fór var ekki um stórbruna að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×