Innlent

Þurrkar ógna afréttum á Suðurlandi

Langvarandi þurrkatíð ógnar afréttum sunnanlands og Landgræðslan hefur verulegar áhyggjur af svæðum víða um land. Mikið mold- og sandfok var um helgina og barst það yfir byggðir Árnessýslu einkum af svæðum sunnan Langjökuls.

Mold- og sandský sást nánast á öllu Suðurlandsundirlendinu fjúka ofan af hálendinu, einkum á laugardag. Björn H. Barkarson, sviðsstjóri landverndarsviðs Landgræðslunnar, segir að það hafi komið af svæðum sunnan Langjökuls. Uppspretta þess hafi einkum verið af leirum við Hagavatn en einnig af Haukadalsheiði og svæði norðan Skjaldbreiðar.

Langvarandi þurrkar geri það að verkum að um leið og vind hreyfir fari jarðvegur af stað. Björn segir að Landgræðslumenn hafi nú áhyggjur af svæðum víða á landinu, svæðum sem búið hafi verið að sá í en gróður hafi hins vegar lítið tekið við sér vegna þurrka. Þeir vonist nú eftir rigningu.

Hann segir að í norðanátt fari sandfokið verst með Haukadalsheiði og alla afrétti á Suðurlandi. Þegar spurt sé hvað sé til ráða nefnir Björn að hugmyndir hafi verið að sökkva leirunum við Hagavatn með því að stífla vatnið en einnig geti verið ráð að mynda gróðurbelti umhverfis svæðin og hefta með því sandfokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×