Innlent

Lést í vinnuslysi í Fljótsdalsstöð

Portúgalskur starfsmaður fyrirtækisins VA-Tech lést í morgun af völdum áverka sem hann fékk við nokkurra metra fall niður á steingólf í stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Slysið átti sér stað um hálfníu í morgun þegar verið var að hífa stykki milli hæða í stöðvarhúsinu.

Eftir því sem fram kemur á vef Kárahnjúkavirkjunar kom slinkur á stykkið við hífinguna og rakst það í manninn sem missti jafnvægið og féll niður á gólf.

Hann var þegar í stað fluttur til Egilsstaða, þaðan sem ætlunin var að senda hann með sjúkraflugi til Reykjavíkur en maðurinn lést á leiðinni í sjúkrabílnum vegna höfuðáverka og innvortis blæðinga.

Maðurinn var með öryggishjálm þegar slysið varð en hann starfaði að uppsetningu túrbínu í Fljótsdalsstöð á vegum VA-Tech sem er þýskt/austurrískt fyrirtæki. Það hefur starfað hér í nokkrun tíma án þess að starfsmenn þess hafi slasast alvarlega að sögn Sigurðar Arnalds, upplýsingafulltrúa Kárahnjúkavirkjunar.

Samstarfsmönnum hans verður boðin áfallahjálp í dag. Lögreglan á Eskifirði rannsakar slysið ásamt Vinnueftirlitinu. Ekki veður greint frá nafni mannsins að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×