Innlent

Segja auglýsingar Heklu um græna bíla vera villandi

Bílar eru ekki grænir, að mati Neytendasamtakanna.
Bílar eru ekki grænir, að mati Neytendasamtakanna. MYND/Vilhelm

Neytendasamtökin hafa kvartað til Neytendastofu vegna auglýsingaherferðar bílaumboðsins Heklu á Volkswagen bifreiðum. Í auglýsingunni eru bílar frá Heklu sagðir „grænir" eða umhverfisvænir, vegna þess að umboðið ætlar að greiða fyrir kolefnisjöfnun bílsins í eitt ár. Þetta segja samtökin vera villandi og hafa óskað eftir áliti Neytendastofu á málinu.

Á heimasíðu Neytendasamtakanna er bent á að bílar séu langt frá því að vera „grænir" ef hugtakið grænn er skilið sem „umhverfisvænn", „eins og berlega er gefið í skyn í þessari auglýsingaherferð," segir á heimasíðunni. Samtökin segjast engan veginn geta tekið undir að bíll sé grænn þrátt fyrir að bílasalinn greiði fyrir kolefnisjöfnun hans í eitt ár.

„Það velkist enginn í vafa um það að bílar hafa slæm áhrif á umhverfið og geta aldrei talist umhverfisvænir. Þessar auglýsingar rugla neytendur í ríminu og að það er mikilvægt að fá úr því skorið hvort markaðurinn komist upp með að staðhæfa að neysluvörur séu góðar fyrir umhverfið án þess að sýna fram á það á vísindalegan hátt," segir á heimasíðu samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×