Innlent

Netþjónabú skapa fjölda þekkingastarfa

Netþjónabú geta skapað mikinn fjölda þekkingarstarfa á Íslandi. Ísland er kjörinn staður fyrir slíkan rekstur en hann veltur algerlega á nýjum sæstreng milli Íslands og Evrópu.

Svokallað netþjónabú felst í því að miðlægur vélbúnaður, svokallaðir netþjónar eru staðsettir hér á landi í miklum klösum. Vinnsla á þeim gögnum sem þeir vista fer hins vegar fram hvar sem er í heiminum. Iðnaðarráðherra segir um viðskiptatækfæri að ræða í mengunarlausri stóriðju sem skapi mörg þekkingarstörf. Starsemin sé hins vegar mjög orkufrek.

Í niðurstöðu athugunar sem kynnt var í dag í Þjóðmenningarhúsi kemur fram að Ísland er kjörinn staður fyrir rekstur netþjónabúa vegna tiltækrar orku og veðurskilyrða sem kalla á minni kælingu en ella. Áætlað er að kostnaður við orku til reksturs slíks gagnavers sé 20-30% lægri hér en í samkeppnislöndunum. Kristján Möller, samönguráðherra segir að lagning nýs sæstrengs sé forgangsmál enda verða gagnasamskipti við umheiminn ekki tryggð nema til komi nýr sæstrengur. Hann mun leggja mikla áherslu á að nýr sæstrengur verði lagður svo fljótt sem verða má.

Að fundinum stóðu Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Farice, Síminn og Teymi auk Fjárfestingarstofu. Skýrr er eitt þeirra fyrirækja á Íslandi sem rekur hýsingu og kerfisveitu á Íslandi. Þórólfur Árnason forstjóri fyrirtækisins segir netþjónabú mjög mikilvægt fyrir fólkið í landinu og að slík starfsemi fæði af sér mörg þekkingarstörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×