Innlent

Efna til fjöldagöngu gegn umferðarslysum

Sumarið er tíminn - en ekki fyrir alla. Hjúkrunarfræðingar eru með kvíðahnút í maganum og ætla að efna til fjöldagöngu gegn umferðarslysum í næstu viku.

Hjúkrunarfræðingar efndu til blaðamannafundar í morgun til að kynna fjöldagöngu gegn umferðarslysum sem á að fara á þriðjudaginn kemur, þann 26. júní.

Sumarið er vissulega tíminn - eins og frægur maður söng - en hann er líka tíminn sem við hjúkrunarfræðingar fáum sting í magann, sagði Soffía Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur á fundinum í morgun.

Hún sagði stéttina ekki vilja fleiri viðskiptavini úr umferðarslysum og skilaboð fundarins voru: Hægið á ykkur og spennið beltin rétt. Hjúkrunarfræðingarnir bentu á að of mörg börn hefðu slasast vegna þess að þau voru rangt spennt í bílinn.

Allir eru hvattir til að ganga með á þriðjudaginn. Lagt verður af stað klukkan fimm síðdegis frá sjúkrabílamóttöku Landspítalans við Hringbraut og gengið að þyrlupallinum við LSH í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×