Innlent

Nýr veruleiki í öryggis- og varnarmálum

Íslendingar standa frammi fyrir nýjum veruleika í öryggis- og varnarmálum og þurfa að fara í meiri stefnumótunarvinnu í málaflokknum, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra. Hún boðar aukin útgjöld til varnarmála og segir þau fyrst og fremst snúast um að gæta hafsvæðisins í kringum Ísland.

Ingibjörg Sólrún er nú í opinberri heimsókn í Noregi þar sem hún hefur rætt við Norðmenn um sameiginleg mál þjóðanna. Ingibjörg fundaði í gær með Anne Grete Ström-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs og starfsbróður sínum, Jonas Gahr Störe, utanrírkisráðherra Noregs.

Þar urðu þau meðal annars ásátt um að efla samvinnu sína til þess að hafa meiri áhrif á stefnumótun innan Evrópusambandsins, meðal annars stefnumótun í orkumálum og málefnum hafsins.

Samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum í tengslum við rammasamning sem gerður var á vormánuðum bar einnig á góma. Ingibjörg Sólrún segir að Íslendingar þurfi að auka verulega framlög til varnarmála en það sé undir okkur sjálfum komið hvað við viljum gera í málaflokknum.

Heimsókn Ingibjargar Sólrúnar heldur áfram í dag þar sem hún ræðir meðal annars við Torbjørn Jagland, forseta Stórþingsins. Þá heimsækir hún Heimskautastofnunina og Sjávarútvegsskólann í Tromsö. Heimsókninni lýkur svo á morgun með fundi hennar með Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×