Innlent

Borgarstjóri búinn að landa einum urriða

Björn Gíslason skrifar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hefur veitt einn urriða í Elliðaánum í morgun en hann opnaði árnar formlega klukkan sjö. Hefð er fyrir því borgarstjórinn í Reykjavík opni árnar ásamt forkólfum Orkuveitunnar og höfðu þeir landað að minnsta kosti tveimur urriðum þegar síðast fréttist.

Enginn lax er hins vegar kominn á land og ljóst að Vilhjálmur má herða sig ætli að hann að verða jafnfengsæll og í fyrra en þá veiddi hann tvo laxa og missti einn fyrir hádegi.

Bjarni Júlíussin, formaður Stangaveiðifélags Íslands, er bökkum Elliðaár með Vilhjálmi og segir að veiðin hafi farið rólega af stað. „Borgarstjóri veiddi ágætan urriða í Sjávarfossinum upp úr átta morgun og við erum vongóðir um að hann nái að landa laxi í dag," sagði Bjarni.

Bjarni segir aðspurður að takmarkanir verði á laxveiðum í Elliðaánum í sumar eins og víða annars staðar þar sem laxastofninum hafi hnignað. Þannig verður kvóttin þrír laxar á stöng á vakt í ánum. Bjarni segir að Stangaveiðifélagið hafi hvatt veiðimenn til að sleppa stærri löxum til þess að tryggja vöxt og viðgang stofnsins. „Við verðum að ganga vel og snyrtilega um náttúruna," segir Bjarni.

Veiði í Elliðaánum verður opnuð fyrir almenningi eftir hádegið og stendur veiðitímabilið til 1. september. Laxveiðin í Elliðaánum síðastliðið sumar var 900 laxar og þar af var 841 fiskur af náttúrulegum stofni Elliðaánna en 59 voru afrakstur seiðasleppinga. Það er nokkru minna en meðaltal áranna 1974-2003 en þá varð hún 1200 laxar samkvæmt heimasíðu Stangaveiðifélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×