Innlent

Búist við samdrætti í landsframleiðslu í ár

MYND/E.Ól

Búist er við því að landsframleiðslan dragist saman um 0,1 prósent í ár þrátt fyrir stóraukinn útflutning áls í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birt var í dag. Stóriðjuframkvæmdir og kvótaúthlutun fyrir næsta ár eru meðal þess sem veldur óvissu í spánni.

Í spánni er bent á að hagkerfið sé að þróast í átt til jafnvægi samfara samdrætti í fjárfestingum við lok stóriðjuframkvæmda og minnkandi einkaneyslu. Reiknað er með að slaki myndist í íslenska hagkerfinu í ár en að hann verði horfinn eftir tvö ár.

Þá er búist við því að viðskiptahallinn dragist hratt saman í ár og verði 16 prósent af landsframleiðslu en hann var rúm 27 prósent í fyrra. Enn fremur er búist við að hallinn verði kominn í átta prósent af landsframleiðslu árið 2009. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir um tveggja prósenta hagvexti á næstu tveimur árum.

Enn fremur segir fjármálaráðuneytið að verðbólga hafi minnkað hratt árinu meðal annars vegna lækkunar á matarverði 1. mars. Á móti hafi fasteignaverð hækkað nokkuð umfram aðra liði og haft áhrif til að halda verðbólgu hærri en ella.

Spáir fjármálaráðuneytið að 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans náist síðar á þessu ári og að verðbólgan verði nálægt markmiðinu á næstu tveimur árum. Samhliða því er gert ráð fyrir auknu atvinnuleysi, 3,9 prósenta atvinnuleysi á næsta ári og 4,5 árið 2009.

Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða frekari stóriðjuframkvæmdir, breytingu á aflamarksreglu fyrir næsta fiskveiðiár, gengi krónunnar, áhrif alþjóðavæðingar á innlenda eftirspurn og endurnýjun kjarasamninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×