Innlent

Aðeins þrjú bílastæði við Rétttrúnaðarkirkjuna

Í nýju deiliskipulagi fyrir Mýrargötusvæðið er gert ráð fyrir byggingu kirkju fyrir rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, en aðeins sett skilyrði um þrjú bílastæði við húsið. Íbúar á svæðinu hafa gert athugasemdir við þetta enda töluverður skortur á bílastæðum í hverfinu.

Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á Mýrargötusvæðinu og reitnum á milli Mýrargötu og Nýlendugötu, en frestur til að gera athugasemdir við nýtt deiliskipulag svæðisins rann út í vikunni. Meðal annars er gert ráð fyrir að hluti Mýrargötu fari í stokk. Íbúar á svæðinu er hins vegar ekki ánægðir með allar þær breytingar sem gert er ráð fyrir, en m.a. á að byggja fyrstu rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna á reitnum við Mýrargötu 20.

Íbúar í hverfinu eru óhressir með að ekki skuli hafa verið nægjanlega vel staðið að kynningu á svæðinu. Þeir eru líka óhressir með að ekki skuli vera gert ráð fyrir nema þremur bílastæðum.

Í skipulagstillögunni er tekið fram að heimilt sé að byggja bílastæðahús í tengslum við byggingu kirkjunnar, en það er ekki gert að skilyrði. Nú þegar er rekið leikhús á svæðinu, Loftkastalinn, verslun tíu -ellefu og ýmis konar önnur starfsemi. Íbúar sem fréttastofan ræddi við segja að mjög erfitt geti verið að fá bílastæði við Nýlendugötu og þeir undrast að við þjónustustofnun eins og kirkju, sem verði væntanlega með athafnir á hverjum degi, sé ekki gerð krafa um fleiri en þrjú bílastæði. En að auki er gert ráð fyrir alls kyns þjónustu og dægrardvöl á gamla slippsvæðinu sem einnig muni kalla á aukna umferð bíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×