Innlent

Lögregla kallar út mannskap á Akureyri

Lögreglan á Akureyri hefur kallað menn úr sumarleyfum vegna aukins viðbúnaðar í kvöld og nótt, vegna skrílsláta í bænum í gærkvöldi. Sjö líkamsárásir komu til kasta lögreglunnar á Akureyri síðast liðna nótt, en um helgina fara fram svokallaðir bíladagar á Akureyri.

Allar fangageymslur voru margsetnar vegna þessa og segir lögregla helgina hafa farið af stað með svipuðum hætti og ef um verslunarmannahelgi væri að ræða. Um klukkan hálffjögur í nótt var lögregla kölluð til að tjaldstæðinu að Hömrum en þar hafði verið ráðist á mann. Þegar lögregla kom á staðinn til að ræða við árásarmanninn kom annar að og veittist að lögreglu. Mennirnir voru báðir handteknir og færðir í fangageymslur. Þá var lögregla kölluð að tjaldstæðinu á nýjan leik klukkustund síðar en þá höfðu brotist út hópslagsmál við innganginn. Ráðist var á gæslumann tjaldsvæðisins sem meiddist lítillega og annar var skallaður í andlit.

Þar með var ekki öll nótt úti enn því um sexleytið brutust aftur út hópslagsmál á tjaldsvæðinu og voru tveir handteknir. Allt í allt var tilkynnt um 7 líkamsárásir á Akureyri í nótt. Auk þess þurfti lögregla að stöðva fjöldan allan af slagsmálum milli manna þó aðallega á tjaldsvæðinu að Hömrum og sinna útköllum vegna hávaða í heimahúsum. Lögreglan hefur í dag verið að búa sig undir það sem kann að gerast í nótt og hafa lögreglumenn á frívöktum og í sumarfríum verið kallaðir út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×