Innlent

Samvinnutryggingar lánuðu ekki til fjárfestinga einstaklinga

Þórólfur Gíslason, stjórnarformaður Eignarhaldfélagsins Samvinnutrygginga, segir ekkert hæft í því að einstaklingar hafi haslað sér völl í íslensku atvinnulífi með lántökum frá félaginu. Félagið hafi ekki lánað fé til einstaklinga til fjárfestinga heldur fjárfest sjálft í hlutabréfum og lítilsháttar í fasteignaskuldabréfum.

Á fundi Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga í gær var ákveðið að slíta félaginu með formlegum hætti. Eignir og skuldir félagsins voru færðar til dótturfélagsins Gift fjárfestingarfélags ehf. Hlutir í því félagi koma til með að skiptast milli eigendanna sem eru fyrrum tryggingatakar Samvinnutrygginga g.t. sem áttu svokallaðan skilyrtan eignarrétt í eignarhaldsfélaginu.

Eignarhlutirnir í hinu nýja félagi verða ekki afhentir fyrrum tryggingatökum fyrr en í fyrsta lagi í október nk. en þeir eru meira en 40 þúsund talsins. Stærsti eigandinn verður Samvinnusjóðurinn sjálfseignastofnun sem að sögn Þórólfs mun einbeita sér að því að veita fé til framfaramála.

Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar hefur verið umsvifamikill fjárfestir á íslenskum hlutabréfamarkaði. Fjárhagslegur styrkur félagsins hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum samfara miklum gengishækkunum í fjármálafyrirtækjum. Þórólfur segir að höfuðstóll félagsins, sem nú hafi verið ávaxtaður með þessum hætti, sé einungis frá rekstri félagsins.

Stærstu eignir félagsins eru hlutafé í Exista hf., íslenskum fjármálastofnunum og óbeinn eignarhlutur að tæpum þriðjungshlut í Icelandair Group hf. í gegnum Langflug ehf.

Þegar Exista yfirtók VÍS á síðasta ári lauk beinni þátttöku Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga í vátryggingarekstri sem hafði staðið frá árinu1946. Þórólfur segir að félagið hafi verið leyst upp vegna þess að félagið hafi ekki lengur nein bein afskipti af tryggingamarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×