Innlent

Þrír fluttir á sjúkrahús eftir umferðaróhapp

Ökumenn tóku ekki tillit til sjúkrabílsins.
Ökumenn tóku ekki tillit til sjúkrabílsins. MYND/SK

Tveir bílar rákust saman á Þjóðvegi 1 í Akrahreppi skammt norðan við bæinn Minni-Akrar laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi. Báðir bílarnir fóru útaf veginum og endaði annar þeirra á hvolfi. Ökumaður annars bílsins var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri en farþegi og ökumaður hins bílsins voru fluttir á sjúkrahúsið á Sauðárkróki.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki var um að ræða fólksbíl og pallbíl. Pallbíllinn var að taka fram úr fólksbílnum þegar hann rakst utan í hann með þeim afleiðingum að fólksbíllinn fór útaf veginum og endaði á hvolfi. Pallbíllinn fór ekki af hjólunum en endaði einnig utan vegar.

Tveir voru í fólksbílnum sem er að gerðinni BMW og voru þeir fluttir á sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Ökumaður var skrámaður en að öðru leyti ómeiddur. Farþegi reyndist hafa sloppið með skrekkinn og voru þeir báðir útskrifaðir fljótlega.

Ökumaður pallbílsins kvartaði undan eymslum í baki og var hann fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri. Á leiðinni þangað reyndust ökumenn á þjóðvegi 1 ekki taka tillit til sjúkrabílsins sem var með blikkandi ljós. Tóku fjölmargir fram úr sjúkrabílnum sem þó var að keyra á um 130 kílómetra hraða á klukkustund.

Að sögn lögreglunnar er BMW bifreiðin ónýt en pallbíllinn lítið skemmdur eftir óhappið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×