Innlent

Sló samfanga sinn í höfuðið með þungum súpudunki

MYND/Stefán

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fanga á Litla-Hrauni í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá annan fanga með súpudunki.

Eftir því sem fram kemur í dómnum sló maðurinn dunknum, sem var nær fullur af súpu og nærri fimm kíló að þyngd, í höfuðið á samfanga sínum þannig að hann fékk kúlu á hnakkann og eymsli í hálsi. Þá slóst dunkurinn í fartölvu fangans sem varð fyrir árásinni og gerði hann upphaflega kröfu um skaðabætur vegna þess en féll svo frá henni.

Maðurinn játaði á sig árásina. Segir í dómnum að árásin hafi verið tilefnislaus og að hún hafi verið framin með allþungu áhaldi. Hún hafi þó haft minni háttar líkamstjón í för með sér fyrir árásarþola. Var 45 daga fangelsisvist sem skilorðsbundin er til tveggja ára því talin hæfileg refsing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×