Innlent

Reynir á upptöku farartækja í fyrsta sinn

Sýslumaðurinn á Selfossi hefur lagt hald á bæði mótorhjólin, sem komu við sögu umferðarslyss á Breiðholtsbraut í vikunni, og ætlar að krefjast þess fyrir dómi að þau verði gerð upptæk til ríkissjóðs.

Það yrði fyrsta mál sinnar tegundar eftir að ný lög heimiluðu slíkt en þau tóku gildi í apríl. Þar er upptaka heimil ef um stórfelldan eða ítrekaðan háskaakstur er að ræða.

Mennirnir sem hlut eiga að máli, munu báðir hafa gerst brotlegir við umferðarlög áður vegna hraðaksturs og hefur annar þeirra hlotið dóm vegna þess.

Ólafur Helgi Kjartansson sýlsumaður telur að ótvírætt eigi að beita þessari nýju lagagrein í þessu tilviki og verða hjólin flutt austur á Selfoss í dag. Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar þar þótt slysið hafi orðið í Reykjavík þar sem málið hófst með radarmælingu Selfosslögreglunnar á Kambabrún.

Varðandi það hvort hægt er að gera ökutæki upptækt ef brotamaðurinn hefur haft það að láni sagði Ólafur það sinn skilning á lögunum að þá megi gera annað ökutæki í eigu brotamannsins upptækt. Krafa sýslumanns fer fyrir dóm um leið og rannsókn lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×