Innlent

Stærsta rannsóknarsvæði Orkuveitunnar í Djíbútí

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Starfsmenn Orkuveitunnar voru í Djíbútí á dögunum þar sem verkefninu var formlega hleypt af stokkunum.
Starfsmenn Orkuveitunnar voru í Djíbútí á dögunum þar sem verkefninu var formlega hleypt af stokkunum. MYND/OR
Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið einkaleyfi til jarðhitarannsókna og forgang á hugsanlegri nýtingu um 750 ferkílómetra lands í afríkuríkinu Djíbútí. Það er stærsta rannsóknarsvæði OR til þessa. Staða Djíbútíbúa í raforkumálum er svipuð og hjá Íslendingum fram til ársins 1960. Þeir fá rafmagn með brennslu innflutts jarðefnaeldsneytis. Stjórnvöld í Djíbútí hafa hug á að feta í fótspor Íslendinga í þessum efnum segir í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni. Flatarmál svæðisins samsvarar liðlega níu Þingvallavötnum og er tæplega sjöfalt stærra en rannsóknarsvæði OR á Hengilssvæðinu. Orkuveitan hefur ekki haft jafn stórt svæði til rannsókna áður. Það er á Assal misgenginu sem gengur eftir stórum hluta austanverðrar Afríku og þvert í gegnum Djíbútí. Jarðhiti þar er víða verulegur. Samkomulag þessa efnis var samþykkt milli OR og ríkisstjórnar Djíbútís í Reykjavík í febrúar síðastliðinn. Önnur ríki sem Assal misgengið fer um hafa sýnt verkefninu áhuga eins og Erítrea, Eþíópía og Kenía. Íslenskir vísindamenn munu vinna að rannsóknunum sem fara fram í sumar og haust. Helstu óvissuþættir raforkuvinnslu úr jarðhita er magn og efnasamsetning vökva í heitum jarðlögum. Heimamenn hafa borað nokkrar grunnar holur og verða sýni úr þeim skoðuð í sumar. Ákvörðun um hvar verður ráðist í boranir á svæðinu verður tekin snemma árs 2008 og munu boranir hefjast seint á því ári.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×