Innlent

Þingkonur Sjálfstæðisflokks segjast sáttar

Þingkonur Sjálfstæðisflokksins segjast sáttar við ráðherravalið þótt þær hefðu kosið að fleiri konur færu í ríkisstjórn af hálfu flokksins. Þorgerður Katrín er eina konan í sex manna ráðherrahópi flokksins.

Ásta Möller er fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og var talin koma til greina sem heilbrigðisráðherra. Hún sagðist hafa viljað sjá fleiri konur í ráðherrastólum en þetta hefði verið niðurstaða flokksins. Hún óskaði Guðlaugi Þór Þórðarsyni alls hins besta í heilbrigðisráðuneytinu.

Arnbjörg Sveinsdóttir heldur áfram að vera þingflokksformaður. Hún segir að aðstæður hafi verið svona og unnið verði út frá þessari niðurstöðu. Aðspurð hve lengi sjálfstæðiskonur ætluðu að bíða þolinmóðar sagði Arnbjörg að þær myndu finna sinn tíma og kæmu sterkar inn á öðrum sviðum í flokknum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði um niðurstöðuna að hún minnti á að konur ættu að sækja fram í prófkjörum. Þetta væri hvatning fyrir sjálfstæðismenn að fylkja liði í kringum konur og gera þær sterkar í Sjálfstæðisflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×