Innlent

Mikið lemstraður eftir árás í miðbænum

Maður á sjötugsaldri er mikið lemstraður eftir hörkulega líkamsárás í miðborginni aðfararnótt sunnudags. Maðurinn er svo miður sín eftir árásina að hann er hættur við umsókn sína um íbúð fyrir aldraða í miðbænum.

María Worms Hjartardóttir var vakinn með óþægilegu símtali klukkan fjögur aðfararnótt sunnudags. Lögreglan tilkynnti henni að faðir hennar, sem er 67 ára gamall, væri á bráðamóttöku Landsspítalans í Fossvogi eftir fólskulega líkamsárás við Laugaveginn. Hún hélt þegar á spítalann.

María segir að sér hafi brugðið þegar hún sá föður sinn. Hann var með þrjá skurði á höfði, ofan og neðan við annað augað, nefbrotinn og rifbeinsbrotinn og með skrámur og marbletti víða um líkamann.

Faðir Maríu er ekkill og býr í Grafarvogi. Hann ætlaði að gera sér glaðan dag og fór á veitingastað nálægt Hlemmi. Hann var á leið niður Laugaveginn til að verða sér út um leigubíl heim þegar atburðarrásin hófst.

Ung stúlka bað hann um að gefa sér eld og bað hann að fylgja sér inn í húsasund. Þar réðst a.m.k. einn maður á manninn og lamdi hann í hnakkann og svo var gengið í skrokk á honum þar sem hann lá bjargarlaus í jörðinni. Árásarliðið rændi veski mannsins með sex þúsund krónum, debetkorti og krítarkorti ásamt bæði húsyklum hans, bíllyklum og gleraugum.

Ekki er vitað hvort árásarliðið náði að taka út af kortum mannsins, en í gærkvöldi hafði maður samband vegna þess að dóttir hans hafði fundið eitthvað af kortunum og hann vildi koma þeim til skila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×