Innlent

Lögðu 417 þúsund kílómetra að baki

MYND/Vefur ÍSÍ

Nýtt met var sett í hinni árlegu hjólakeppni Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, Hjólað í vinnuna, sem stóð frá 2. til 22. maí. Alls lögðu 6642 þátttakendur frá 409 vinnustöðum ríflega 417 þúsund kílómetra að baki á þessum tíma en það jafngildir rúmum tíu hringjum í kringum jörðina.

Til samanburðar þá voru þátttakendur í fyrra 5300 frá 246 vinnustöðum. Í keppninni þurfti þó ekki að hjóla því þriðjungur þátttakenda fór á tveimur jafnfljótum í vinnuna og einhverjir á línuskautum eða með strætó.

Í þeim fyrirtækjum þar sem þátttakan reyndist mest var hún 75-85 prósent. Þannig tóku 306 starfsmenn Alcan þátt í keppninni eða 72 prósent starfsmanna, og hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen voru 85 prósent starfsmanna með í keppninni. Hjá Biskupsstofu var hlutfallið svo 98 prósent en þrír vinnustaðir með 3-9 starfsmenn náðu 100 prósenta þátttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×