Innlent

Sex mánaða fangelsi fyrir líkamsárás

MYND/365

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 6 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Maðurinn sló annan mann með glerflösku í andlitið á skemmtistað í Reykjavík í fyrra. Þá var honum gert að greiða fórnarlambinu 273 þúsund krónur í skaðabætur.

Árásin átti sér stað á Hressingarskálanum í miðbæ Reykjavíkur í apríl á síðasta ári. Maðurinn réðst þá á annan mann og sló hann í andlitið með glerflösku. Við höggið brotnaði flaskan með þeim afleiðingum að fórnarlambið hlaut tvö tveggja sentimetra löng og alldjúp skurðsár á vinstri augabrún. Sauma þurfti bæði sárin með 6 til 7 sporum.

Fórnarlambið krafðist tæplegar 400 þúsund króna í skaðabætur vegna árásarinnar en maðurinn neitaði sök.

Maðurinn hefur tvisvar áður verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Þá gekkst hann tvisvar sinnum undir sátt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hann var sviptur ökuréttindum síðasta sumar vegna ölvunaraksturs.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×