Innlent

Dæmdar bætur vegna þýðinga á Friends

Hæstiréttur dæmdi í dag Árna Samúelsson til að greiða þýðandanum Ólafi Jónssyni eina milljón króna í bætur vegna höfundarréttarbrota í tengslum við þýðingar á Friends-þáttunum.

Ólafur hafði þýtt þættina á íslensku fyrir sjónvarp og gáfu SAM-myndbönd þá út á DVD-diskum og VHS með þeirri þýðingu. Höfðaði Ólafur mál á hendur Árna og krafðist bóta en SAM-myndbönd, sem eru í eigu Árna, höfðu gefið út þættina á VHS-myndböndum með þýðingum Ólafs samkvæmt munnlegum samningi við hann. Taldi Ólafur að hinn munnlegi samningur hefði ekki náð til nýtingar á þýðingunum við útgáfu DVD-diskanna, eins og Árni hélt fram, og að honum hafi mátt vera það kunnugt.

Féllst Hæstiréttur á þá röksemd og dæmdi Árna til að greiða Ólafi skaða- og miskabætur að upphæð ein milljón króna sem fyrr segir. Sneri hann þar með við dómi Héraðsdóms sem sýknaði Árna af kröfunni. Einn dómari skilaði séráliti, Jón Steinar Gunnlaugsson, og vildi sýkna Árna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×