Innlent

Vilja fá svar áður en ráðist verður í umhverfismat

Dýrafjörður hefur verið nefndur sem hugsanlegur staður fyrir olíuhreinsunarstöð.
Dýrafjörður hefur verið nefndur sem hugsanlegur staður fyrir olíuhreinsunarstöð. MYND/Róbert

Forsvarsmenn Íslensks hátækniiðnaðar þrýsta á um að sveitarfélög á Vestfjörðum svari á næstu mánuðum hvort vilji sé fyrir því að reisa olíuhreinsistöð í landshlutanum.

Kynningarfundur um stöðina var haldinn á Ísafirði í gær og fram kemur á vef Bæjarins besta að mikil undibúningsvinna sé fram undan áður en hægt verði að taka afstöðu til stöðvarinnar. Fjórðungssambandi Vestfjarða hefur verið falið stýra undirbúningsvinnunni og verður skipuð sérstök nefnd til að kanna mögulega staðsetningu olíuhreinsistöðvarinnar á Vestfjörðum og hvort samfélagið á Vestfjörðum geti tekið við slíkri stöð.

Forsvarsmenn Íslensks hátækniiðnaðar munu upphaflega hafa horft til annað hvort Vestfjarða eða Austurlands en ekki talið ráðlegt að fara með verksmiðjuna austur vegna álversuppbyggingar þar.

Eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða er hvort mengun frá olíuhreinsistöðinni rúmist innan mengungarkvóta Íslendinga en búist er við að stöðin sleppi út um 300 þúsund tonnum af mengunarefnum á ári.

Er greint frá því á Bæjarins besta að forsvarsmenn Íslensks hátækniiðnaðar vilji nota sumarið og haustið til að meta umhverfisáhrif slíkrar stöðvar en umhverfismat kosti á bilinu 70-150 milljónir króna. Fjárfestarnir séu ekki tilbúnir að leggja út í þann kostnað nema sveitarfélögin á svæðinu vilji fá olíuhreinsistöðina í landshlutann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×