Innlent

Teymishópur ræðir atvinnumál á Vestfjörðum á morgun

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. MYND/GVA

Teymishópur sveitarfélaga á norðanverðurm Vestfjörðum sem skipaður hefur verið í kjölfar uppsagna hjá útgerðafyrirtækinu Kambi á Flateyri kemur saman í fyrsta sinn í hádeginu á morgun og ræðir hugsanlegar aðgerðir í atvinnumálum á svæðinu. Eins og kunnugt er var 120 manns sagt upp hjá Kambi þar sem félagið hyggst hætta starfsemi á Flateyri og selja eignir sínar.

Að sögn Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra á Ísafirði, er verið að ræða ýmsar hugmyndir í atvinnumálum Ísfirðinga en hann hefur í dag setið fund á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga á Ísafirði þar sem fulltrúar þeirra aðila sem vilja reisa olíuvinnslustöð á Vestfjörðum hafa kynnt hugmyndir sínar fyrir sveitarstjórnarmönnum í fjórðungnum.

Halldór segir aðeins um upplýsingafund að ræða en aðspurður um næstu skref segist hann búast við að fulltrúar vestra fari utan að skoða olíuvinnslustöð sambærilega þeirri sem hugmyndir eru uppi um á Vestfjörðum.

Þá hafa einnig verið ræddar hugmyndir um að nýta ferskvatn úr Vestfjarðagöngum og hefur atvinnunefnd Ísafjarðar verið falið að kanna hvort einhverjir aðilar hafi áhuga á að flytja vatnið út eða vilji jafnvel stofna vatns- eða bruggverksmiðju á Vestfjörðum. Halldór tekur þó fram aðeins sé um hugmyndir að ræða og verið sé að skoða málin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×