Innlent

Tónlist.is staðið skil á stefgjöldum

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri vefsíðunnar Tónlist.is.
Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri vefsíðunnar Tónlist.is. MYND/GVA

Eigendur vefsíðunnar Tónlist.is hafa staðið skil á öllum stefgjöldum til Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF). Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra STEFs.

Fjallað var um vefsíðuna Tónlist.is í fréttum Fréttablaðsins í gær. Þar kom meðal annars fram að tónlistarmenn væru ósáttir við síðuna þar sem þeir hefðu ekki fengið greidd stefgjöld af seldri tónlist.

Þessu vísaði Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Tónlist.is, á bug í sérstakri yfirlýsingu í gær. Sagði hann fréttaflutning Fréttablaðsins rangan og að Tónlist.is hefði staðið við allar greiðslur vegna stefgjalda.

Í yfirlýsingunni sem Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri STEFs, sendi frá sér í dag kemur fram að Tónlist.is hafi staðið skil á umsömdum höfundarréttargjöldum. Hins vegar sé það svo að höfundagjöld fyrir tónlistarnot á vefnum séu tiltölulega lág í samanburði við önnur höfundagjöld. Því séu það ekki háar fjárhæðir sem hver höfundur fær í sinn hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×