Innlent

Byggja 4 þúsund fermetra gagnageymslu á gamla varnarsvæðinu

MYND/AB

Stefnt er að því að byggja 4 þúsund fermetra húsnæði fyrir gagnageymslu og gagnaþjónustu á gamla varnarsvæðinu við Sandgerðisbæ. Það er Data Íslandia sem stendur fyrir verkefninu en fyrirtækið skrifaði undir viljayfirlýsingu við Sandgerðisbæ í dag vegna framkvæmdarinnar. Gert er ráð fyrir því að um 20 manns vinni við gagnageymsluna til að byrja með.

Samkvæmt tilkynningu frá Data Íslandia er gert er ráð fyrir því að bygging húsnæðisins hefjist síðar á þessu ári. Húsnæðið verður byggt upp í áföngum og er fyrsti áfangi áætlaður um 800 fermetrar. Fullbyggt verður húsnæðið hins vegar um 4000 fermetrar. Þá er gert ráð fyrir því að um 20 störf skapist þegar fyrsta áfanga verður lokið og að fleiri bætist við síðar.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar en að því koma fjölmargir aðrir aðilar.

Nú þegar hefur Hitaveita Suðurnesja skrifað undir viljayfirlýsingu um útvegun á orku við Sandgerðisbæ. VSÓ Ráðgjöf og Kanon Arkitektar vinna að hönnun og skipulagi svæðisins og ParX Viðskiptaráðgjöf IBM vinnur með framkvæmdaaðilum að framgangi verkefnisins.

Þá kemur líka fram í tilkynningu Data Íslandia að gagnageymsla muni að mestu þjónusta stóra erlenda viðskiptavini sem vilja vista mikið magn gagna á eins umhverfisvænan hátt og kostur er.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×