Innlent

Mega sækja felld hreindýr á vélknúnum tækjum utan vega

MYND/GVA

Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að veita leiðsögumönnum með hreindýraveiðum heimild til að sækja bráðina á léttum vélknúnum ökutækjum að lágmarki með sex hjólum ef leiðsögumaður metur það svo að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Ráðuneytið setti reglugerð í júní fyrir tveimur árum þar sem kveðið var á um að óheimilt væri að aka slíkum tækjum utan vega nema á snævi þakinni og frosinni jörð og þar sem engin hætta væri á náttúruspjöllum.

Hins vegar komu fram ábendingar um að erfitt yrði að fylgja þessu þar sem veiðislóðir hreindýra væru sums staðar fjarri akstursleiðum og því gæti reynst ógjörningur að koma bráðinni óskemmdri til byggða.

Var reglunum því breytt en heimildin gildir þó eingöngu þar sem dýr hafa verið felld fjarri vegum. Leiðsögumenn á hreindýraveiðum þurfa að afla sér starfsréttinda með námskeiðum og staðþekkingu á veiðisvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×