Innlent

Ríkið dæmt til að greiða yfir 2 milljónir vegna ólögmætrar uppsagnar

MYND/AB

Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gert að greiða fyrrum starfsmanni á varnarsvæðinu á Miðnesheiði rúmar 2 milljónir í skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Manninum var sagt upp vegna trúnaðarbrests.

Maðurinn gegndi starfi sýningarstjóra og framkvæmdastjóra kvikmyndahússins á Keflavíkurflugvelli. Var hann búinn að gegna því starfi í tæp ellefu ár þegar honum var sagt fyrirvararlaust upp í febrúar á síðasta ári. Krafðist maðurinn að ríkið greiddi honum laun út fjögurra mánaða uppsagnarfrest.

Ástæða uppsagnarinnar var sögð vera trúnaðarbrestur en manninum var gert að hafa misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri kvikmyndahússins. Meðal annars með ólöglegum flutningi ótollafgreidds varnings af varnarsvæðinu og með því að selja Íslendingum aðgang að kvikmyndahúsinu. Ákæra á hendur framkvæmdastjóranum vegna þessa máls var hins vegar dregin til baka í síðastliðnum febrúarmánuði.

Þar sem ekki lá fyrir annað en ætluð brot í starfi féllst dómurinn á kröfu mannins og gerði ríkinu skylt að greiða manninum tæpar 2,4 milljónir króna í samræmi við uppsagnarfrest ásamt vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×